*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 21. nóvember 2013 10:27

Um 14% landsmanna reykir

Mun færri reykja á Íslandi en annarsstaðar í lönum OECD.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Reykingar drógust saman um 20% að meðaltali í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, síðastliðinn áratug. Samdrátturinn var nokkru meira hér á landi. Þetta sýna nýjar samanburðartölur sem Hagstofan birti í morgun upp úr ritinu „Health at a Glance 2013, OECD indicators“

Árið 2011 reyktu rúm 14% fullorðinna á Íslandi daglega samanborið við 21% í löndum OECD að meðaltali. Almennt reykir hærra hlutfall karla en kvenna en á Íslandi, í Danmörku, Noregi og á Bretlandi voru reykingar svipaðar hjá kynjunum.

Reykingar og áfengisdrykkja 15 ára ungmenna voru með því minnsta hér á landi miðað við 26 lönd OECD árin 2009-2010 en hlutfall of þungra ungmenna var heldur hærra hér (17%) en meðaltal OECD (15%). 

Rúmlega helmingur fullorðinna er nú talinn of þungur eða of feitur í 20 af 34 löndum OECD, þ.á m. á Íslandi. Árið 2011 var hlutfall of feitra hæst í Bandaríkjunum eða rúm 36% en lægst í Kóreu og Japan, um 4%. Á sama tíma var þetta hlutfall 21% á Íslandi en 10-17% á hinum Norðurlöndunum. Samkvæmt skýrslu OECD voru sjö aðildarlönd með hærra hlutfall of feitra en Ísland.