Tæplega 3 þúsund fleiri konur en karlar þiggja ellilífeyri á Íslandi en þeim fækkar sem treysta eingöngu á greiðslur Tryggingastofnunar. Á árabilinu 2007 til 2016 hefur fjöldi þeirra sem njóta ellilífeyrisgreiðslna af einhverjum toga fjölgað frá 33.292 árið 2007 upp í 43.650 árið 2016. Þar af eru 20.333 karlar og 23.317 konur að því er Hagstofan greinir frá.

Á sama tíma hefur íbúum landsins fjölgað úr tæplega 308 hundruð þúsund í yfir 350 þúsund eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun, en fjöldi starfandi á vinnumarkaði á síðasta ári nam næstum 198 þúsund manns. Ef einungis er horft til árabilsins 2007 til 2016 hefur hlutfall þeirra sem þiggja ellilífeyrisgreiðslur af íbúum landsins þrátt fyrir þessa miklu fjölgun hækkað.

Lækkaði það reyndar á viðmiðunarárinu eða frá 2007 til 2008, úr 10,82% í 10,75%, en síðan hefur hlutfall þeirra aukist jafnt og þétt og er það nú 13,13% íbúa landsins. Miðast hlutfallstalan við 1. janúar hvert ár þegar horft er á heildaríbúafjöldann.

Á sama tíma hefur þeim fjölgað sem þiggja ellilífeyri en eru yngri en 67 ára, en árið 2007 voru það 3,5% ellilífeyrisþega. Árið 2016 voru þeir sem eru yngri en almennur eftirlaunaaldur 6,3%, eða 2.769 manns.

Á tímabilinu hefur þeim einnig fækkað hlutfallslega sem treysta eingöngu á greiðslur frá tryggingastofnun. Þannig voru 95% karla og 92% kvenna sem fengu allt eða eitthvað greitt úr lífeyrissjóði árið 2007, en árið 2016 var samsvarandi hlutfall komið í 97% og 96%.