Alls bárust um 800 umsóknir í störf flugfreyja og flugþjóna hjá Wow air en félagið auglýsti eftir flugliðum í lok nóvember sl. Í tilkynningu frá Wow air kemur fram að um 50-60 manns verða ráðnir í sumarstörf flugliða en WOW air verður með fjórar vélar í rekstri næsta sumar.

Næsta sumar munu um 100 flugliðar starfa hjá WOW air sem þýðir tvöföldun á fjölda flugliða frá síðasta sumri eftir því sem fram kemur í tilkynningunni.

Þessa dagana fara fram viðtöl við umsækjendur sem hafa reynslu af störfum flugliða og næstkomandi sunnudag munu 200 nýliðar þreyta próf í Háskólabíó. Að umsóknarferlinu loknu munu tilvonandi flugliðar WOW air sitja öryggis- og þjónustunámskeið. Þjálfun nýliða sem er bæði verkleg og bókleg tekur um tvo mánuði.

„Í hópi umsækjanda voru meðal annars lögfræðingar, hjúkrunarfræðingar, leikarar, kennarar, dansarar, líffræðingar og höfrungaþjálfari svo nokkur dæmi séu tekin. Gífurlegur fjöldi hæfra einstaklinga sótti um en því miður komast færri að en vilja,“ segir í tilkynningunni.

Gert er ráð fyrir 450 þúsund farþegum með WOW air árið 2013 eftir því sem fram kemur í tilkynningunni.

Jómfrúarferð WOW air
Jómfrúarferð WOW air
© Sigurjón Ragnar (SR)