Rússneska olíufyrirtækið Rosneft sigraði olíufyrirtækið Anglo-Russian í gær þegar haldið var uppboð á 9,44% hlut í bréfum Rosneft. Hluturinn hafði áður verið í eigu rússneska orkufyrirtækisins Yukos sem var lýst gjaldþrota fyrir um tveimur árum síðan. Rosneft samþykkti að greiða 7,61 milljarða Bandaríkjadali fyrir hlutinn, sem var aðeins 1,2% meira heldur en lágmarksverð.

Talsmaður fyrrum stjórnendateymis Yukos sagði að uppboðið væri hneyksli og hefði aðeins verið haldið með það að markmiði að auka völd ráðamanna í Kreml í stærstu orkufyrirtækjum Rússa.

Sumir sérfræðingar benda á að þátttaka Anglo-Russian í uppboðinu hafi aðeins verið til þess að hjálpa rússneskum stjórnvöldum að láta líta út sem svo að uppboðið hafi verið eðlilegt og lögmætt. Þannig hafi fyrirtækinu tekist að bæta ímynd sína á meðal helstu stjórnmálaleiðtoga Rússlands.