Stjórn Promens er byrjað að leggja drögin að skráningu félagsins í Kauphöll en stefnt á að af því verði fyrir lok næsta árs.

Fram kemur í tilkynningu frá Promens að í aðdraganda skráningar sé áformað að halda almennt hlutafjárútboð í þeim tilgangi að fjölga hluthöfum félagsins. Horn Fjárfestingarfélag, dótturfélag Landsbankans, og Framtakssjóður Íslands, eiga samtals 99,4% hlut í Promens og er stefna bæði félögin að selja hluta af eign sinni í hlutafjárútboðinu. Promens hefur ráðið Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans til að aðstoða félagið við undirbúning skráningar.

Promens framleiðir meðal annars umbúðir fyrir matvörur, snyrtivörur, efnavörur og lyf og íhluti sem notaðir eru við gerð bíla, vinnuvéla, framleiðslutækja og raftækja, fyrir viðskiptavini í fjölmörgum atvinnugreinum. Promens rekur 43 verksmiðjur í 20 löndum og eru starfsmenn félagsins um 3.800 talsins. Höfuðstöðvar Promens eru á Íslandi. Fyrirtækið á rætur í Sæplasti á Dalvík og hefur á síðastliðnum 10 árum vaxið mikið með kaupum og sameiningum nokkurra fyrirtækja. Í ár er áætlað að velta samstæðunnar nemi um 600 milljónum evra, jafnvirði tæpra 100 milljarða íslenskra króna.