Hugbúnaðarfyrirtækið Friðrik Skúlason ehf. undirbýr opnun skrifstofu í Búlgaríu með 10 til 20 starfsmönnum en að sögn stofnanda og aðaleiganda félagsins, Friðriks Skúlasonar, er rekstrarstaða félagsins hér á Íslandi mjög erfið vegna sterkrar stöðu krónunnar. Varð tap af rekstri félagsins í fyrra í fyrsta skipti síðan félagið var stofnað árið 1989. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.

"Það fer auðvitað svolítið eftir þróun gengisins hvað við gerum í málinu en það er ekki grundvöllur fyrir því að hafa reksturinn eins og hann er miðað við núverandi gengi," sagði Friðrik en félagið er með nánast allar sínar tekjur í dollurum og öll sín útgjöld í íslenskum krónumi. Velta félagsins í fyrra var um 5 milljónir dollara en hjá félaginu starfa um 50 manns. Í dag eru 5 starfsmenn erlendis en það gæti breyst. "Því lengur sem núverandi hágengisstefna ríkir því stærri hluti íslensks hugbúnaðariðnaðar fer til útlanda, það er svo einfalt."

Vegna slælegs fjarskiptasambandssambands við útlönd hefur fyrirtækið orðið að flytja netþjónastarfsemi sína til útlanda og sagði Friðrik að frekari útrás væri á döfinni. "Við höfum einn starfsmann í Búlgaríu núna sem yrði líklega yfir starfseminni þar ef til þess kæmi. Við höfum verið að skoða samstarfssamning við veirurannsóknardeild háskólans í Sófíu en hún er partur af búlgörsku vísindaakademíunni. Við höfum verið að skoða að taka það yfir en þar starfa 10 manns. Þetta er partur af stærra máli sem ég vil ekki fara út í að sinni." Ef ráðist verður í að opna skrifstofu í Búlgaríu yrði um þriðjungur starfseminnar þar.

Í dag er ríflega 95% hlutafjár í félaginu í eigu Friðriks og fjölskyldu. Afgangurinn er í eigu starfsmanna. Undanfarið hefur verið skoðaður möguleika á að taka inn nýja hluthafa, auka hlutafé og efla starfsemi félagsins, jafnvel með ytri vexti en til þessa hefur félagið eingöngu vaxið með innri vext. Tók Friðrik sem dæmi að félagið hefði alla burði til þess að fara inn á svið farsímavírusa sem stöðugt kveður meira að en afl skorti til að ráðast í slíkt þróunarstarf. Einnig þurfi félagið að efla markaðsstarf sitt en nú vinni aðeins þrír starfsmenn við það á meðan 40 starfi við þróunarvinnu. Félagið hafi þannig til þessa aðallega lagt áherslu á þróunarvinnu. "Til að breyta þessu höfum við verið að horfa til þess að fá inn fjárfesta í fyrirtækið og um leið til að byggja upp ákveðna hluti sem okkur vantar í dag." Að sögn Friðrik yrði hugsanleg aðkoma nýrra fjárfesta skoðuð í tengslum við hugsanlega skráningu félagsins á isec hlutabréfamarkaðinn sem einkum er ætlaður smáum og millistórum fyrirtækjum. Um það hefur þó ekki verið tekin nein ákvörðun ennþá.