Thorsil ehf. og Hunter Douglas Metals í Bandaríkjunum hafa undirritað samning um sölu og dreifingu á 24.000 tonnum af kísilmálmi á ári í átta ár. Thorsil mun hefja afhendingu á málminum árið 2017. Verðmæti viðskiptanna, sem samningurinn nær til, er um 67 milljarðar króna. Í tilkynningu kemur fram að Thorsil er með í undirbúningi langtímasamninga við fleiri erlenda stórnotendur á kísilmálmi.

„Thosil ehf. fékk í apríl úthlutað 16 hektara inðaðarlóð skammt frá höfninni í Helguvík, en fyrirtækið vinnur að undirbúningi að því að reisa og reka kísilmálmverksmiðju á svæðinu. Verksmiðjan mun framleiða um 54.000 tonn af kísilmálmi á ári og verður fjöldi starfsmanna um 130. Thorsil er alfarið í eigu Íslendinga en hluthafar félagsins eru Northsil ehf. og Strokkur Silicon ehf. Arctica Finance er fjármálalegur ráðgjafi Thorsils og hefur aðstoðað við fjármögnun verkefnisins. Thorsil samdi í byrjun þessa árs við verkfræðistofuna Mannvit um hönnun verksmiðjunnar og er gert ráð fyrir að framkvæmdir við byggingu verksmiðjunnar hefjist á fyrsta ársfjórðngi 2015 og framleiðsla á kísilmálmi tveimur árum síðar, eða á fyrsta ársfjórðungi 2017,“ segir í tilkynningu.

Þá kemur fram að Hunter Douglas Metals, sem hefur aðsetur í Chicago í Bandaríkjunum, er leiðandi fyrirtæki í þjónustu við áliðnaðinn víða um heim. Fyrirtækið er dótturfélag Hunter Douglas N.V. í Hollandi sem á og rekur tæplega 200 fyrirtæki í 100 löndum.