Ítalski bankinn UniCredit, einn sá stærsti á Ítalíu, tapaði 14 milljörðum evra, jafnvirði tæpra 2.200 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári. Þetta er mesta tap í sögu bankans. Tapið skýrist að stórum hluta af niðurfærslu á viðskiptavild og afskriftum útlána til viðskiptavina á Ítalíu, í Rússlandi, Tyrklandi, Austurrík og í Mið- og Austur-Evrópu. Ráðist var í aðgerðirnar í aðdraganda álagsprófs á vegum evrópska seðlabankans síðar á árinu.

Breska dagblaðið Financial Times segir UniCredit fyrsta bankann til að taka til í efnahagsreikningi sínum fyrir álagsprófið. Fleiri muni fylgja í kjölfarið og megi vænta þess að tap þeirra verði mikið. Í umfjöllun Financial Times um taprekstur UniCredit segir jafnframt að stjórnin áformi að greiða hluthöfum í framtíðinni arð í formi hlutabréfa í stað reiðufjár til að koma í veg fyrir að útstreymi úr sjóðum bankans hafi neikvæð áhrif á hann.

Blaðið hefur hins vegar eftir fjármálasérfræðingi að stjórnendur bankans hafi gripið seint til aðgerða og muni þeir eiga í mesta basli við að halda uppi lögbundnu eigifjárhlutfalli hans.