Hlutabréfaverð hugbúnaðarfyrirtækisins Unity lækkaði um meira en 12% í gær og stendur nú í 50,4 Bandaríkjadölum á hlut. Gengi félagsins hefur fallið um 63,7% frá áramótum og er nú í fyrsta sinn komið undir 52 dala útboðsgengið í frumútboði félagsins fyrir skráningu í kauphöll Nasdaq í New York í september 2020.

Miklar lækkanir voru á mörkuðum vestanhafs og lækkaði S&P 500 vísitalan um 3,2% og NASDAQ-100 Technology Sector vísitalan féll um 5,8%. Unity birtir uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung eftir lokun markaða í dag.

Sjá einnig: Davíð selt fyrir 20 milljarða

Viðskiptablaðið sagði frá því í síðustu viku að Davíð Helgason, einn þriggja stofnenda Unity, væri ekki lengur að finna á rauntímalista Forbes yfir milljarðamæringa í dölum talið. Davíð á 3,1% hlut í Unity sem er 461 milljón dala eða um 61 milljarður króna að markaðsvirði.