Tæknifyrirtækið Unity Technologies hefur gert samstarfssamning við Sony um að hanna hugbúnað sem notaður verður til að búa til tölvuleiki fyrir PlayStation 4, PlayStation Vita, PlayStation Mobile og væntanlega leikjaþjónustu Sony í skýinu.

Unity var stofnað árið 2003 af Davíð Helgasyni ásamt tveimur öðrum, Dana og Þjóðverja. Fyrirtækið framleiðir verkfæri fyrir tölvuleikjaframleiðendur og er tækni fyrirtækisins sú vinsælasta hjá þeim sem búa til leiki fyrir snjallsíma.

Á vefsíðu Unity segir að vinnan fyrir Sony sé enn á fyrstu stigum og að nokkrir mánuðir séu í að fyrstu útgáfur hugbúnaðarins líta dagsins ljós. Endanleg útgáfa muni birtast fyrir árslok og prufuútgáfa muni koma nokkrum mánuðum fyrr.

Þar segir jafnframt að Sony sé alvara í því að gera sem flestum forriturum og leikjahönnuðum kleyft að búa til leiki fyrir PlayStation og því sé samstarf Sony og Unity skynsamlegt fyrir báða aðila.

Ítarlegt viðtal við Davíð birtist í Viðskiptablaðinu þann 10. janúar síðastliðinn . Þar fór hann m.a. yfir leit fyrirtækisins að fjárfestum eftir hrunið 2008. „Sem betur fer eru mjög góðir fjárfestingasjóðir í Bandaríkjunum sem horfa langt fram í tímann. Þeir sáu það sem við sáum ekki, að snjallsímabyltingin yrði jafn stór eða stærri en tölvubyltingin 30 árum fyrr. Sjóðirnir töldu að þeir sem yrðu snemma á ferðinni ættu mikla vaxtarmöguleika,“ sagði Davíð, en Unity er nú með höfuðstöðvar í San Fransisco og eru starfsmenn orðnir um 240 talsins.