Væntingar eru um að þungavigtarbankar í Bandaríkjunum upplýsi um enn meira tap vegna lausafjárkreppunnar í vikunni og tilkynni um frekari stöðutöku erlendra ríkisfjárfestingasjóða í þeim. Kastljósið verður jafnframt á seðlabönkum heims í vikunni þegar fyrstu uppgjör fjármálafyrirtækja fyrir fjórða ársfjórðung síðasta árs birtist.

Í gær birtist frétt á Bloomberg þar sem leiddar voru líkur að því að afkoma síðasta ársfjórðungs hjá Citigroup, Bank of America og Merrill Lynch kynni að vera sú versta í sögu þeirra og að 35 milljarða Bandaríkjadala afskriftir myndu hamla hagnaði á yfirstandandi ári. Þessi frétt bættist við röð neikvæðra frétta um fjármálafyrirtæki um helgina.

Á sunnudag var fullyrt á vefsíðu bandarísku viðskiptafréttastöðvarinnar CNBC að Citigroup þyrfti að afskrifa allt að 24 milljarða Bandaríkjadala vegna hrunsins á markaðnum með fjármálagjörninga með tengsl í bandarískum undirmálslánum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf formi hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta sótt um hann hér .