Sýn Margrétar Pálu Ólafsdóttur er skýr í menntamálum enda hefur henni tekist að byggja upp og búa til sátt um Hjallastefnuna. Margrét Pála rekur í dag sautján skóla víða um land og stefnir á enn frekari stækkun í framtíðinni.

Liturinn fjólublár á best við þegar Margrét Pála lýsir stjórnmálaskoðun sinni en hún segist helst vera anarkisti. „Ég var gríðarlega pólitísk á vinstri vængnum og virk í Alþýðubandalaginu í mörg ár. Núna er ég búin að missa ótrúlega mikinn áhuga á flokkapólitík því ég er búin að sjá að það er alls staðar gott fólk, hvar sem maður finnur jafnréttissinna og skólafólk. Ætli megi ekki segja að ég hafi farið vinstra megin út úr Alþýðubandalaginu. Ég er að sumu leyti með anarkískar skoðanir og vil bara að allir geti fengið að finna sína leið.“

Margrét Pála segir enga eina lausn sem virki fyrir alla, alltaf og endalaust. „Það sem breytti ekki hvað síst skoðunum mínum var þegar ég kom úr felum sem lesbía fyrir um 30 árum síðan, að vera þá í umhverfi þar sem samfélagið er meira að segja með skoðun á því hvern ég elskaði. Þegar ég áttaði mig á því að ég glataði öllum réttindum við það eitt að koma úr felum og ríkið var með skoðun á því hvar mínar tilfinningar lægju, þá var farið að fjúka í flest skjól. Ég trúi því að við verðum öll að leita að okkar hamingju í starfi og einkalífi á okkar nótum. Við verðum að fá að leita að hamingjunni en um leið trúa því að mannlegt samfélag virki best í samhjálp og stuðningi. Þannig að ég myndi flokka þetta í nokkuð fjólubláar skoðanir.“

„Við Ásdís Halla Bragadóttir sögðum stundum í spaugi þegar Garðabær vildi fyrstur styðja við Hjallastefnuna að hún væri frjálshyggjumanneskja og ég anarkisti að niðurstaðan væri sú að við næðum ágætlega saman í frelsishugsunum. Ég veit svo hins vegar ekki hvort ég sé sammála Sjálfstæðisflokknum í utanríkismálum til dæmis. Ég er að mörgu leyti hætt að hafa skoðanir á flokkspólitískum málum af því ég tel það ekki virka fyrir okkur. Þar þarf að gera breytingar líka.“

Margrét Pála er í ítarlegu viðtali í áramótablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .