Útboð á ríkisbréfum í flokki RIKB 10 0317 með tilboðsfyrirkomulagi fór fram hjá Lánasýslu ríkisins í dag en í útboðinu var óskað eftir kauptilboðum í flokkinn að heildarfjárhæð á bilinu 500 til 1.500 milljónir króna. Alls bárust 20 gild tilboð að fjárhæð 8.100 milljónir. Tilboðum var tekið fyrir 1.500 milljónir króna á meðalávöxtun 9,80%.

Útboð í þessum flokki ríkisbréfa fara fram mánaðarlega en í síðastu tveim útboðum sem fram fóru í febrúar og mars var engum tilboðum tekið þar sem þau þóttu óhagstæð. Í janúar var hinsvegar tekið við kauptilboðum fyrir 1.500 milljónir króna á meðalávöxtun 8,11%. Ávöxtunarkrafan nú hefur því hækkað um 1,7% síðan í janúar sem endurspeglar að mati Lúðvíks Elíassonar sérfræðings greiningardeildar Landsbankans auknar væntingar um frekari hækkanir stýrivaxta og að nú hafa skapast horfur fyrir að hávaxtaskeiðið muni vara til lengri tíma en fyrr var haldið.

Útboð ríkisbréfanna sem fóru út um þúfur í febrúar og janúar voru í erlendum fjölmiðlum túlkuð á þann hátt að það endurspeglaði viðkvæmt ástand í íslenskum efnahagsmálum um þær mundir sem útboðin fóru fram og gæfu til kynna veika stöðu ríkissjóðs.

Lúðvík sagði í samtali við Viðskiptablaðið að varasamt væri að draga slíkar ályktanir þar sem útboð af þessu tagi væru tíð og ekki væri óalgengt að engum tilboðum væri tekið. Lánasýslan væri nú að stækka ríkisbréfaflokkinn RIKB 10 0317 í smáskrefum meðal annars vegna þess að verið væri að kaupa upp annan flokk sem er að nálgast lokagjalddaga. Ríkið er að sinna því hlutverki sínu að stuðla að eðlilegri og frjálsri verðmyndun á markaði með útboðunum. Bein fjármögnunarþörf ríkisins er í lágmarki um þessar mundir og því eru útboðin ekki nauðsynleg sagði Lúðvík.

Lúðvík sagði að vissulega gæti útboðið verið hagstæðara en hækkun ávöxtunarkröfunnar um 1,7% frá því að þessi skuldabréfaflokkur var síðast stækkaður nú í janúar væri þó í takt við það sem er að gerast á hinum almenna markaði.