Úthafskarfakvótinn verður skorinn niður um 17% á yfirstandi ári samkvæmt reglugerð sem Sjárvarútvegsráðuneytið hefur gefið út, segir greiningardeild Glitnis.

Úthafskarfakvótinn verður 28,6 þúsund tonn, þar af eru 23,4 þúsund tonn innan íslensku lögsögunnar en 5,2 þúsund tonn utan hennar.

Fyrir nokkrum árum var úthafskarfakvótinn 55 þúsund tonn, segir greiningardeildin.

Það má áætla að aflaverðmæti úthafskarfans sé um tveir milljarðar, að því gefnu að það náist að veiða upp í allan kvótann í ár og miðað við afurðaverð, segir greiningardeildin.

HB Grandi hefur mestra hagsmuna að gæta af veiðum á úthafskarfa af íslensku sjávarútvegsfélögunum.

Félagið á um 30,5% af úthafskarfakvótanum og fær því úthlutað um 8,7 þúsund tonnum í ár. FISK Seafood á Sauðárkróki á næst mesta hlutdeild í úthafskarfanum, eða um 16,4% af heildinni. Samherji kemur þar á eftir, ræður yfir um 12,2% af úthlutuðum kvóta.

Þótt úthafskarfakvótinn í fyrra hafi verið 34,5 þúsund tonn náðist ekki að veiða nema 16 þúsund tonn vegna tregrar veiði, sérstaklega veiddist lítið utan lögsögunnar. Úthlutunin í ár er því talsvert hærri en heildarveiðin var á síðasta ári.

Ákvörðun ráðherra tekur mið af tillögu strandríkja innan NA-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar en hlutdeild Íslendinga er um 46% af heildaraflanum.