„Þetta getur nú strax breyst í kvöld á fundi atvinnuveganefndarinnar. En eins og staðan er núna þá hefur ríkisstjórnin lagt fram ákveðnar hugmyndir, eða tillögur öllu heldur, að breytingum á frumvarpinu eins og það var lagt fram,“ segir Einars K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í atvinnuveganefnd Alþingis.

Meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til er að leyfilegt verði að draga neikvæða rentu frá hagnaði í fimm ár. Þá verði veiðigjaldið lækkað og vald hinnar svokölluðu veiðileyfanefndar aukið. Þetta kemur fram í máli Einars sem segir flestar þær breytingar sem meirihlutinn leggi nú til jákvæðar þó hann telji enn að í frumvörpunum sé gert ráð fyrir gjaldtöku sem sé langt umfram greiðslugetu sjávarútvegsins.

Komið til móts við skuldsett fyrirtæki

„Það er verið að breyta þessu þannig að fyrsta árið verði ekki um að ræða prósentugjaldtöku af tilteknum gjaldstofni," segir Einar. "Gjaldstofninn er þá það sem ríkisstjórnin kallar rentu en er í raun engin renta heldur einfaldlega gjaldstofn. Það er horfið frá því fyrsta árið og þess í stað er innheimt sérstakt gjald fyrir hvert þorskígildiskíló. Þá er lækkað það veiðigjald sem átti að innheimtast vegna áhrifa frá fiskvinnslunni og horfið frá því að innheimta veiðigjald af fiskinum sem er veiddur utan íslenskrar lögsögu. Loks er komið til móts við þau fyrirtæki sem eru með mestar skuldir vegna kvótakaupa og það gert með tilteknum hætti sem lækkar gjaldtökuna þar sérstaklega. Þetta, að mínu mati, er allt í meginatriðum jákvætt í sjálfu sér. En í heildarsamhenginu breytir það ekki myndinni í mínum huga að gjaldtakan þegar upp er staðið verður of mikil.“

Í máli margra þeirra sérfræðinga sem gefið hafa álit sitt á frumvörpunum hefur komið fram að á nokkrum stöðum megi finna eiginlegar villur, eða skekkjur, sem leiði til þess að rangt mat sé lagt á afkomu greinarinnar. Aðspurður hvort breytingartillögur meirihlutans feli í sér leiðréttingu á einhverjum þessara ábendinga segir Einar:

„Þeir reyna að komast hjá hluta skekkjunnar með því að hætta að nota vísitöluviðmiðanir, sem voru annars vegar byggingavöruvísitala og hins vegar neysluverðsvísitala, og taka í staðinn upp vísitölur sem eiga að endurspegla verðþróun, annars vegar í botnfiski og hins vegar í uppsjávarfiski. Sú aðferð dregur úr þessari innbyggðu skekkju sem var í frumvarpinu og virðist virka bærilega fyrir botnfiskinn en síður fyrir uppsjávarfiskinn. Í raun og veru er það viðurkennt í breytingartillögum meirihlutans að frumvarpið hafi verið á algjörlega rangri leið því það er gert ráð fyrir að svokölluð veiðileyfanefnd sem á að setja á laggirnar muni gera tillögur til ráðherra um framtíðarfyrirkomulag.“

Óvíst hvenær lokadrög liggja fyrir

Breytingar á hlutverki veiðileyfinefndarinnar eru dæmi um aðra umfangsmikla breytingatillögu sem meirihlutinn leggur nú til. „Veiðigjaldanefndinni er falið viðamikið vald, meðal annars við að útfæra skattlagningarmálin. Það er þó með þeim fyrirvara að henni er ætlað að gera tillögur til ráðherra um að beita sér fyrir lagabreytingum eða breytingum á reglum  þegar það á við.“ Einar segir að gert sé ráð fyrir að nefndin hefji störf um leið og lögin taki gildi, ef af því verði. Hlutverkið skilji hann þannig að starf nefndarinnar verði viðvarandi og hún fylgist með þróun þessara mála.

Að lokum segist Einar ekki viss hvenær lokatillögur nefndarinnar eigi að liggja fyrir. Nú hafi minnihlutinn færi á að koma athugasemdum á framfæri í nefndinni en ekki sé skýrt hvenær lokaniðurstöðu megi vænta. Ekki náðist í Kristján L. Möller, þingmann Samfylkingarinnar og formann Atvinnuveganefndar, við vinnslu fréttarinnar.