Vanskil fyrirtækja við bankana eru að aukast, segir Elín Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands, í samtali við Viðskiptablaðið í dag. Hún segir að það séu merki um erfiðleika og jafnvel undanfari lokana, gjaldþrota eða sameiningar fyrirtækja. Ástandið sé þó enn ekki orðið verulega slæmt. „Ef ástandið væri orðið verulega slæmt væri ég með á borðinu tíu til tólf fyrirtæki sem væru að verða gjaldþrota - en ástandið er ekki orðið þannig ennþá,“ segir hún.

Elín segir hins vegar að róðurinn sé að þyngjast hjá fyrirtækjunum í landinu, sama í hvaða geira þau séu, með örfáum undantekningum, s.s. útflutningsfyrirtækjum, sem njóti góðs af hækkandi gengi krónunnar. „Fyrir hin fyrirtækin verður ástandið verra og verra vegna þess að vaxtastigið í landinu er svakalega hátt. Þeir sem skulda í íslenskum krónum eru að borga ofurháa íslenska vexti,“ segir hún og tekur fram að það hafi ekkert með bankakerfið að gera heldur stýrivaxtastigið í landinu . „Og þeir sem skulda í erlendri mynt eru í þessum krónurússíbana og búnir að taka á sig mikið högg. Ofaná bætist þetta: Á meðan bankarnir ná ekki að fjármagna sig halda þeir í sitt lausafé. Það gerir fyrirtækjum enn erfiðara fyrir og þau ná ekki í peninga í nýjar framkvæmdir.“

Hátt vaxtastig étur upp eigið fé fyrirtækja

Viðmælendur Viðskiptablaðsins sem gerst þekkja segja að bankarnir hafi dregið verulega úr lánveitingum og láni helst ekki til nýrra verkefna og undir það tekur Elín. „Ég get sagt það fyrir minn banka að það er bara verið að þjónusta fyrirtækin - varðandi lán - með það allra nauðsynlegasta, með því að skilja engan eftir í miðri á, heldur hjálpa mönnum að landi.“ Hún segir að almennt sé ekki verið að fara í ný verkefni.

Elín segir enn fremur aðspurð að hátt vaxtastig éti upp eigið fé fyrirtækja - jafnvel þeirra sem eru vel rekin. „Þegar vaxtastigið er svona hátt éta vextirnir upp það sem annars ætti að vera að bætast við höfuðstól til að auka eigið fé milli ára. Fyrirtæki geta verið vel rekin en samt ekki náð að mynda eðlilegt eigið fé.“

Nánar er fjallað um málið í helgarútgáfu Viðskiptablaðsins sem kom út í dag.