Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, segir að húsnæðisvandi Íslendinga sé einungis að litlu leyti byggingarreglugerðum að kenna heldur kom þar inn verðbólga og skortur á fjármunum, lánum, lóðum og öðru sem kemur að skipulagsmálum sveitarfélaga.

„Það eru miklu stærri breytur en reglur byggingariðnaðarins,“ segir Björn sem helst vill meina að hér vanti stóra aðila sem leigi út húsnæði til almennings. „Við Íslendingar höfum ekki borið gæfu til þess að setja upp leigufélög sem byggja stórar íbúðablokkir með íbúðum sem eru leigðar ódýrt út, líkt og gerðist á Norðurlöndunum fyrir mörgum áratugum síðan. Þetta er þó á einhverri leið hjá okkur núna.“

Björn vonast eftir því að ný rafræn byggingargátt sem stofnunin er að taka í gagnið muni einfalda alla verkferla og stjórnsýslu byggingaframkvæmda. Tilkoma rafrænnar byggingargáttar mun ekki einungis einfalda eftirlit með byggingarframkvæmdum hér á landi heldur vonast Björn til þess að með nýjunginni verði mögulegt að opna fyrir aukna valmögulega í eftirlitinu. Byggingargáttin verður tekin í gagnið með vorinu en Björn telur að á sama tíma og allir verkferlar og stjórnsýsla við framkvæmdirnar séu einfölduð, séu gæðin samt sem áður tryggð, ekki ósvipað því að á sér stað með faggiltar skoðunarstofur bifreiða.

„Það er hugmyndin að eftirlitsaðilinn í þessum bransa verði faggild stofa,“ segir Björn en í dag er byggingareftirlit á vegum sveitarfélaganna í landinu, en þeirra hlutverk myndi þá í auknum mæli flytjast yfir í að fylgjast með skoðunarstofunum sjálfum.

„Annaðhvort verður þá byggingarfulltrúi sveitarfélagsins faggiltur og sér þá sjálfur um skoðunina, eða þá að byggingarfulltrúi hvers sveitarfélags fyrir sig sér bara um stjórnsýslu málsins en eigandi húsnæðisins kalli til faggilda skoðunarstofu til að taka út verkið.“

Gerir eftirlitið gegnsærra

Björn segir rafrænu byggingargáttina og þær rafrænu skoðunarhandbækur sem eru aðgengilegar í gegnum hana, gera allt ferlið frá hönnun til þess þegar húsið er afhent fullbúið, mun gegnsærra og aðgengilegra fyrir byggingaraðila. Þannig geti þeir sjálfir séð hvað það er sem þarf að tryggja að sé í lagi.

„Byggingargáttin heldur utan um alveg allt hið opinbera ferli, en þar byrjar byggingaraðili á því að sækja um byggingarleyfið og síðan getur hann fylgst með öllu ferlinu þar inni. Inn í gáttina kemur nú eftirlit með hönnunargögnum, og annað sem nú er skoðað eftir stöðluðum aðferðum. Síðan eru athugasemdirnar sem eru gerðar jafnframt orðnar staðlaðar,“ segir Björn en stofnunin hefur nú þegar opnað fyrir prufukeyrslu á gáttinni á vegum Hveragerðis, Kópavogsbæjar og Reykjanesbæjar.

Nánar er fjallað um málið í Verk og vit, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .