Töluvert hefur blásið um Framsóknarflokkinn síð­ustu daga. Stormurinn hófst þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður flokksins og forsætisráð­herra, tilkynnti samflokksmönnum sínum með engum fyrirvara að hann hefði sagt skilið við flokkinn.

Í bréfi til Framsóknarmanna, sem hann birti á vefsíðu sinni, rekur hann ástæður viðskilnaðarins, tilraunir til að fella hann og ákvörð­un hans um að segja sig úr Framsóknarflokknum, meðal annars til að forða flokknum frá innanflokks­ átökum. Brotthvarf Sigmundar virðist þó ekki hafa lægt neinar öldur innan Framsóknarflokksins, því í kjölfar úrsagnarinnar sagði nokkur fjöldi Framsóknarmanna sig úr flokknum, þeirra á meðal Þorsteinn Sæmundsson, fyrrverandi þingmaður flokksins.

Degi áður en Sigmundur opinberaði úrsögn sína tilkynnti Björn Ingi Hrafnsson að hann hygðist stofna nýjan stjórnmálaflokk og stofnaði í því skyni lénið samvinnuflokkurinn.is, sem gefur ýmislegt uppi um hverjar verða áherslur flokks Björns Inga. Áður var hann meðal annars borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, þótt hann hafi undanfarin ár verið kunnari fyrir fjölmiðlarekstur.

Flokkur Björns rann svo saman við Miðflokk Sigmundar á fimmtudaginn. Allt síðan Sigurður Ingi velti Sigmundi Davíð úr formannsstólnum á átakaflokksþingi í Háskólabíó fyrir rúmu ári hafa mikil innanhússátök verið í flokknum. Innanbúðarmaður í Framsóknarflokknum segir að þetta hafi valdið því Framsóknarflokkurinn hafi ekki náð vera sú „brú á milli vinstri og hægri, sem hann hefur gjarnan verið í íslenskum stjórnmálum.“

Ekki gróið um heilt

Stundum er sagt að flokkurinn sé opinn í báða enda og er þá einmitt verið að vísa til þessa. Þetta er líka ástæðan fyrir því að flokkurinn hefur, þrátt fyrir að hafa stundum lítið fylgi, náð að koma sér í ríkisstjórn. Ekki hefur gróið um heilt á milli Sigurðar Inga og Sigmundar Davíðs frá fundinum í Háskólabíói. Sigurður Ingi er sagður hafa reynt að ná sáttum en Sigmundur Davíð segist ekki kannast við neinar slíkar sáttaumleitanir. Þetta endurspeglar ágætlega vandann. Núverandi og fyrrverandi formað­ur virðast ekki hafa getað talað saman.

Í viðtali í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni þann 24. maí tilkynnti Sigmundur Davíð að hann hefði stofnað Framfarafélagið. Tilgangurinn með félaginu væri að „skapa öflugan vettvang fyrir frjálsa umræðu, fræðslu og framsetningu hugmynda og lausna,“ eins og hann orðaði það. Fjórum dögum áður en Sigmundur Davíð tilkynnti um stofnun Framfarafélagsins hafði miðstjórn Framsóknarflokksins haldið vorfund á Hótel Natura. Í ræðu sinni sagði Sigurður Ingi: „Ég vil nota þetta tækifæri hér í dag og spyrja; ímyndið ykkur hvað við gætum gert núna ef okkur auðnaðist að ganga í takt?“

Var ekki með nýjan flokk í hyggju

Formaðurinn sagði enn fremur í ræðunni: „Ég skil vel að einhverjir hafi orðið sárir og það taki tíma að heila þau sár. Ég skil að það geta ekki allir verið ánægðir öllum stundum og ég geri ekki kröfu um slíkt. En ég á erfitt með að skilja þá sem gera óánægjuna að sínum helsta vin og félaga. Að mínu viti er það ekki í eðli og anda Framsóknarflokksins að standa þannig að málum.“

Í þættinum á Bylgjunni sagði Sigmundur Davíð að ástandið í flokknum væri „ekki gott“. Hins vegar hefði miðstjórnarfundurinn verið góður „að því leyti að menn voru þar afdráttarlausir, lýstu því afdráttarlaust yfir að þetta gengi ekki, staðan eins og hún er.“ Sigmundur Davíð var spurður í þættinum hvort hann hygð­ist stofna nýjan stjórnmálaflokk og sagðist hann ekki vera með neitt slíkt í huga. Annað hefur nú komið á daginn. Samkvæmt heimildum Við­skiptablaðsins er alls ekki öruggt að Sigmundur Davíð hafi alltaf ætlað sér að stofna nýjan flokk.

Einn heimildarmaður úr flokknum telur að hann hafi fyrst ætlað að sjá hvernig flokkþingið færi eftir áramót. Ef flokksmenn væru ekki tilbúnir að leiða hann aftur til valda myndi hann stofna nýjan flokk. Stjórnarslitin breyttu þessu öllu. Nú er búið að boða til kosninga 28. október og flokksþingi Framsóknar var ekki flýtt. Þar með er ljóst að Sigurður Ingi mun leiða Framsóknarflokkinn í kosningunum. Það má því rekja atburðarásina, sem fór af stað í Framsóknarflokknum á sunnudaginn þegar Sigmundur Davíð sagði sig úr flokknum, til ákvörðunar Bjartrar framtíðar um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. Þá byrjaði boltinn hjá Sigmundi Davíð að rúlla.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .