Martin Blessing, forstjóri Commerzbank.
Martin Blessing, forstjóri Commerzbank.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Martin Blessing, bankastjóri Commerzbank, er allt annað en kátur eftir skuldaniðurfellingu Grikkja.

Martin Blessing, bankastjóri þýska bankans Commerzbank, stendur eftir sár og reiður í kjölfar skuldaniðurfellingar Grikkja. Niðurstaða náðist um afgreiðslu á neyðarlánapakka til þeirra eftir þrotlausar samningaviðræður sendifulltrúa Evrópusambandsins, evrópska seðlabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og kröfuhafahóps í byrjun vikunnar.

Viðræðurnar snérust öðru fremur um það að lánardrottnar Grikkja þurftu að fella stóran hluta af kröfum sínum á þjóðina niður. Commerzbank afskrifaði 2,2 milljarða evra, sem jafngildir 74% af eign sinni á grískum ríkisskuldabréfum.

Bandaríska stórblaðið Wall Street Journal greinir frá því að Blessing líki þátttökunni í skuldaniðurfellingunni við játningar frammi fyrir spænska rannsóknarréttinum á 15. og 16. öld en þar voru játningar og samvinna dregnar fram úr fórnarlömbum með pyntingum.

Commerzbank hagnaðist um 316 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi sem var 23% aukning á milli ára. Hagnaðurinn liggur að stórum hluta í endurskipulagningu eignasafns og endurkaupum á skuldabréfum bankans. Á sama tíma færði bankinn niður verðmæti grískra ríkisskuldabréfa um 700 milljónir evra.

Commerzbank er að stórum hluta í eigu þýska ríkisins, sem lagði honum til 18,2 milljarða evra árið 2009. Stutt er síðan útlit væri fyrir að ríkið gæti þurft að leggja honum til 5,3 milljarða til viðbótar.