*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 21. október 2020 09:16

Varnarsigur vegna útgöngu Breta

Framkvæmdastjóri Logos vonar að stofan verði til skamms tíma í rústabjörgunum og geti sem fyrst byrjað að styðja stöndug fyrirtæki.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Við erum stærsta lögmannsstofa landsins og það er í mörg horn að líta. Þannig hefur óneitanlega farið töluverður tími í að sinna stjórn félagsins,“ segir Þórólfur Jónsson, framkvæmdastjóri lögmannsstofunnar LOGOS, en hann tók við framkvæmdastjórn í félaginu síðasta vor. Helga Melkorka Óttarsdóttir hafði stýrt félaginu árin sex þar á undan.

Hagnaður Logos á síðasta rekstrarári nam rúmlega 372 milljónum króna og dróst saman um fimmtung frá árinu á undan. Tekjur námu 1,9 milljörðum króna og drógust saman um tæp níu prósent. Rekstrargjöld lækkuðu að sama skapi eða um þrjú prósent og námu rúmlega 1,3 milljörðum. Starfsmönnum fækkaði eilítið milli ára, fóru úr 66 meðalstöðugildum niður í 61.

„Ég hef reynt að halda mínu striki, halda áfram hefðbundinni lögmennsku og sinna viðskiptavinunum samhliða framkvæmdastjórninni. Það hefur þýtt að dagarnir hafa lengst og álagið aukist. Almennt hefur það gengið vel. Ég hef gaman af samskiptum við fólk, starfið er fjölbreytt og það er áskorun að sjá hvar við getum sótt fram og gert betur,“ segir Þórólfur.

Um svipað leyti og Þórólfur tók við höfðu efnahagsleg óveðursský hreiðrað um sig á Íslandi með tilheyrandi óvissu. Óvissan var hins vegar öllu meiri í Bretlandi, vegna útgöngu ríkisins úr Evrópusambandinu og alls þess havarís sem fylgdi, og hafði það áhrif á afkomu starfsemi LOGOS þar ytra.

„Brexit-málið fór illa með efnahagslífið og markaðinn úti þannig að við upplifðum meiri samdrátt þar heldur en hér heima. Við þurftum því að grípa til vissra breytinga sem mér sýnist hafa verið að skila sér. Þær fólust meðal annars í að fækka störfum og breyta aðeins skipulaginu. Mér sýnist á öllu að það hafi náðst að koma starfseminni þar í ágætan farveg og því má segja að við höfum unnið ákveðinn varnarsigur. Við höfðum væntingar til þess að ná meiri sókn á þessu ári en mér sýnist við vera komin í vörn á nýjan leik sökum þessa sjúkdóms sem nú herjar á heimsbyggðina,“ segir Þórólfur.

Kyrrstaða ekki kjöraðstæður

Áratugurinn sem er að renna sitt skeið hafði í för með sér ákveðið gullaldarskeið fyrir lögmannsstofur landsins. Kröggurnar sem fylgdu efnahagslegu skipbroti landsins höfðu það í för með sér að eftirspurn eftir þjónustu lögfróðra var gífurleg og afkoma stærstu lögmannsstofanna eftir því. Það ástand varði þó ekki endalaust og grynnkaði eilítið á verkefnastöðunni þegar síga fór á seinni hluta áratugarins, uppbygging fór á fullt og hjól atvinnulífsins snerust á nýjan leik.

„Það er vissulega rétt að kyrrstaða efnahagslífsins telst ekki til kjöraðstæðna fyrir lögmenn, við þrífumst á breytingum og kviku ástandi. Í kjölfar efnahagshrunsins átti sér stað heildaruppstokkun í íslensku efnahagslífi sem kallaði á gríðarlega aðkomu lögmanna,“ segir Þórólfur.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út á dögunum og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.