Vaxandi áhyggjur stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins af aðstæðum í atvinnulífinu mælast í nýrri könnun Gallup þeirra á meðal. Könnunin er gerð ársfjórðungslega fyrir Samtök atvinnulífsins í samstarfi við Seðlabanka Íslands.

Eru áhyggjurnar einkum í útflutningsgreinum og sýna niðurstöðurnar mikinn viðsnúning í mati þeirra á horfum á næstunni þar sem jafnmargir búast við að horfurnar batni og að þær versni.

Vinnuaflsskortur fer minnkandi

Tæpur helmingur finnur fyrir vinnuaflsskorti, en hann hefur þó minnkað frá síðustu könnun. Búast má við 1,5% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum.

Búast stjórnendur við verðbólgu undir markmiði á næstu 12 mánuðum í öllum atvinnugreinum og stærðarflokkum fyrirtækja.

Vænta mikillar aukningar á eftirspurn

Þrátt fyrir auknar áhyggjur sjá stjórnendur fyrir mikla aukningu eftirspurnar á innanlandsmarkaði á næsta hálfa árinu, en 54% þeirra búast við aukinni eftirspurn, 41% að hún standi í stað en 5% að hún minnki.

Á erlendum mörkuðum er horfurnar einnig góðar, en 40% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn, 47% að hún verði óbreytt og 9% að hún minnki.

Langflestir stjórnendur, eða 76%, telja aðstæðurnar í efnahagslífinu góðar, sem er þó fækkun frá síðustu könnun, en þá töldu 83% aðstæður góðar. Jafnframt hefur þeim fjölgað milli kannanna sem telja aðstæðurnar vera slæmar, eða frá 2% til 5%.

Mikill munur milli landshluta

Munurinn er áberandi milli höfuðborgar og landsbyggðar, en einungis 2% stjórnenda á höfuðborgarsvæðinu telja aðstæður slæma en á landsbyggðinni telja 13% þeirra þær slæmar.

Telja nú einungis 20% þeirra að aðstæður batni samanborið við 39% í síðustu könnun, 60% telja að þær verði óbreyttar en 20% að þær versni.

Styrking krónunnar veldur sjávarútvegi áhyggjum

Sjávarútvegurinn sker sig þó úr sem fyrr, en 18% stjórnenda sjávarútvegsfyrirtækja telja aðstæður slæmar sem Samtök atvinnulífsins telja að ugglaust megi rekja til styrkingar gengis krónunnar. Í síðustu könnun voru 12% stjórnenda í greininni á því að aðstæður væru slæmar.

Eru stjórnendur í sjávarútvegi nokkuð svartsýnir en 42% þeirra telji að aðstæður versni, en einungis 7% þeirra að þær batni.

Horfur versna í ferðaþjónustu

Í ferðaþjónustu og flutningum hafa aðstæður breyst töluvert milli kannanna en í síðustu könnun taldi enginn stjórnenda í greininni aðstæður slæmar, en hlutfall þeirra er nú 8%.

Svartsýni hefur einnig aukist í þeirri grein, en 25% þeirra telja aðstæður versni en 17% að þær batni. Einnig eru fleiri stjórnendur sem telja að aðstæður versni en batni í iðnaði.

Mestar áhyggjur eru í útflutningsstarfsemi, en 29% stjórnenda í þeirri grein telja að aðstæður versni meðan 20% þeirra telji að þær batni.

Sama hlutfall í heimamarkaðsgreinum er 12% og 21%.