Velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi, fyrir utan lyfjaframleiðslu, var 722 milljarðar í mars og apríl 2019, eða 3,9% hærri en sömu mánuði árið áður. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar .

Velta eykst í útflutningsgreinum

Velta jókst mest í útflutningsgreinum, s.s. sjávarútvegi (15,7%), framleiðslu málma (13,9%) og heild- og umboðsverslun með fisk (13,0%).

Hægist á byggingageiranum

Nú hægir á byggingaframkvæmdum. Velta í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð hækkaði um 4,8%.

Minni bílasala

Velta í flokknum „sala og viðhald vélknúinna ökutækja“ lækkaði um 9,9%, vegna 14% lækkunar veltu í bílasölu.

Einkennandi greinar ferðaþjónustu

Velta í farþegaflutningum milli landa með flugi var 26% lægri í mars og apríl 2019 en sömu mánuði 2018. Á þessu tímabili hættu tvö flugfélög starfsemi, Primera Air í október 2018 og WOW air í mars 2019.

Velta í gistiþjónustu var nánast óbreytt milli ára (+0,4%) en velta í veitingarekstri lækkaði lítillega (-3,3%).

Velta jókst hjá ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum (8,0%). Hjá ferðaskrifstofum sem selja ferðir erlendis jókst velta um 0,7% en hjá ferðaskrifstofum sem selja ferðir á Íslandi jókst velta um 9,8%.

Velta lækkaði í öðrum einkennandi greinum ferðaþjónustu: bílaleigu (-4,4%), farþegaflutningum á landi ( 7,0%) og farþegaflutningum á sjó og vötnum ( 7,5%).