Veltan verktakafyrirtækisins Ístaks á síðasta ári var um 12 milljarðar króna. Starfsmenn Ístaks eru um 650 og lætur nærri að ef starfsmenn undirverktaka eru taldir með þá séu starfsmennirnir um 1.000 talsins. Í viðtali Viðskiptablaðsins í dag við Loft Árnason, framkvæmdastjóra Ístaks, kemur fram að verkefnastaða félagsins er mjög góð um þessar mundir.

Loftur segir að varðandi mönnun verkefna þá hafi verið gripið til þess ráðs að flytja inn starfsfólk víða að. "Það má segja að þriðji hver maður sem hjá okkur vinnur, eða yfir 200 manns, sé af erlendum uppruna. Þetta hefur verið breytilegt hvaðan mannskapurinn kemur en í dag eru þetta mest Pólverjar og Þjóðverjar," segir Loftur í Viðskiptablaðinu.

Loftur segir engan skort vera á verkefnum, en fyrirtækið er nú með verkefni í þrem löndum, Íslandi, Færeyjum og á Grænlandi. Stærstu verkin eru þó í kringum stóriðjuna á Íslandi, þ.e. við gerð Kárahnjúkavirkjunar og við stækkun Norðuráls í Hvalfirði.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag en með blaðinu fylgir ítarlegt sérrit um verktakaiðnaðinn.