*

föstudagur, 14. maí 2021
Innlent 15. apríl 2021 17:29

Velta Kolku komin yfir tíu milljarða

Umsvif samstæðu Nathan & Olsen, Ekrunnar og Emmessís jukust töluvert í fyrra og hagnaðurinn ríflega tvöfaldaðist milli ára.

Ingvar Haraldsson
Ari Fenger er forstjóri Kolku og stjórnarformaður Viðskiptaráðs.
Ragnar Axelsson

Hagur Eignarhaldsfélagsins Kolku, vænkaðist á síðasta ári en hagnaður félagsins jókst úr 134 milljónum í 306 milljónir króna á milli ára. Kolka er móðurfélag 1912 ehf. sem á heildsölufélaganna Nathan & Olsen og Ekrunnar ásamt Emmessís.  

Líkt og greint var frá í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag hefur Kolka skrifað undir kaupsamning um kaup á helmingshlut í Ísbúðinni Huppu.

Sjá einnig: Kaupa helmingshlut í Huppu

Tekjur samstæðu Kolku jukust um 9%, úr 9,4 milljörðum í 10,3 milljarða króna. Þá jókst rekstrarhagnaður úr 301 milljón í 521 milljón króna á milli áranna 2019 og 2020.

Kolka keypti 56% í Emmessís sumarið 2019 af félaginu Ísgörðum, í eigu Pálma Jónssonar. Það vakti athygli þar sem Pálmi hafði keypt 89% hlut í Emmessís nokkrum mánuðum fyrr. Eftir söluna til Kolku hélt Pálmi eftir 35% hlut í félaginu. Pálmi seldi helming þess hlutar á síðasta ári til Kolku sem á nú 82% hlut í Emmessís.

Kolka er í eigu systkinanna Ara og Bjargar Fenger og móður þeirra, Kristínar Fenger. Fenger fjölskyldan á einnig fjárfestingafélagið Helgafell sem er óbeint einn stærsti hluthafi fjárfestingafélagsins Stoða í gegnum félagið S121 ehf.

Sjá einnig: Helgafell hagnaðist um 1,9 milljarða

Hagnaður Helgafells jókst úr 1,3 milljörðum króna í 1,9 milljarða króna, einna helst vegna góðrar afkomu Stoða í fyrra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér