*

föstudagur, 14. maí 2021
Innlent 14. apríl 2021 19:14

Kaupa helmingshlut í Huppu

Aðaleigandi Emmessís kaupir 50% hlut í Ísbúðinni Huppu. Eigendur Huppu segir vinsældirnar hafi reynst margfalt meiri en búist var við.

Ingvar Haraldsson
Telma Finnsdóttir og Eygló Rún Karlsdóttir, stofnuðu Huppu ásamt mökum sínum Gunnari Má Þráinssyni og Sverri Rúnarssyni.
Aðsend mynd

Eignarhaldsfélagið Kolka, aðaleigandi Emmessís, skrifaði í janúar undir kaup á 50% hlut á Huppuís, sem rekur ísbúðir á Selfossi og höfuðborgarsvæðinu. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins sem er með málið til meðferðar.

Ísbúðin Huppa var stofnuð á Selfossi sumarið 2013 af vinkonunum Telmu Finnsdóttur og Eygló Rún Karlsdóttur, sem þá voru 23 ára, og mökum þeirra, þeim Gunnari Má Þráinssyni og Sverri Rúnarssyni.

Í samstarfi við Emmessís frá upphafi

Síðan þá hafa umsvifin aukist til muna og er Huppuís orðin ein stærsta ísbúðakeðja landsins. „Þetta er orðið miklu stærra en okkur hefði órað fyrir," segir Telma. Hugmyndin hafi upphaflega aðeins verið að opna ísbúð á Selfossi eftir að hafa fundið skemmtilegt húsnæði.

Félagið hefur frá upphafi verið í samstarfi við Emmessís um ísframleiðslu. „Við höfum alltaf haft gott samstarf við Emmessís og það er spennandi að fá inn aðila sem er tilbúinn að styðja við frekari vöxt fyrirtækisins," segir Telma.

Félagið hefur uppi áform um að fjölga ísbúðum frekar þegar færi gefst. „Við erum alltaf með augun opin fyrir skemmtilegum staðsetningum og hoppum á það ef okkur líst vel á."

Nýjasta ísbúðin bættist við í febrúar þegar Huppa opnaði við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði. „Það er alltaf gaman að opna nýja ísbúð og hún hefur gengið vonum framar," segir Telma. Raunar má það sama segja um rekstur Huppu undanfarin átta ár.

Vilja bæta við sig fleiri ísbúðum

Vinsældir fyrstu ísbúðarinnar á Selfossi urðu til þess að félagið opnaði ísbúð í Reykjavík árið 2015. Álfheimar 4 urðu fyrir valinu en þar hefur verið rekin  ísbúð frá árinu 1979. Í kjölfarið bættust við verslanir í Spönginni í Grafarvogi, í Kringlunni og Garðabæ. Þá stækkaði Huppa einnig fljótlega við sig á Selfossi og fór í stærra húsnæði við Eyrarveg 2.

Telma segir að frá upphafi hafi verið lögð mikil áhersla á notalegt umhverfi og góða þjónustu. Huppa hefur boðið upp á tvenns konar ístegundir með Emmessís, það er rjómaísinn Sveitaís og Huppuís sem er kaldur mjólkurís. Þá hefur verið lagður töluverður metnaður í bragðarefs- og sjeikmatseðil ísbúðanna.

Kolka er móðurfélag 1912 ehf. sem á heildsölurnar Nathan & Olsen og Ekruna ásamt Emmessís. Félagið er í eigu systkinanna Ara og Bjargar Fenger og móður þeirra, Kristínar Fenger.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Ekki eru öll kurl komin til grafar hvað kjararáð varðar þótt ráðið hafi sungið sitt síðasta fyrir þremur árum.
  • Fjallað um skýrslu ríkisendurskoðanda um aðkomu Samgöngustofu og Isavia að rekstri Wow air á síðustu mánuðum félagsins.
  • Fjallað er um aðdraganda spíralmyndunar í kostnaði við sjófrakt á heimsvísu og rætt við forstjóra Eimskips um áhrif hækkana á félagið og horfur framundan.
  • Vörubílastöðin Þróttur fagnar um þessar mundir níræðisafmæli. Framkvæmdastjóri félagsins segir frá sögu þess og hvernig starfsemin hefur tekið breytingum í gegnum tíðina.
  • Sagt er frá harðri baráttu Björgólfs Thors á fjarskiptamarkaði í Kólumbíu
  • Fjallað er um umfangsmikla hlutafjáraukningu hjá SaltPay, eiganda Borgunar.
  • Fjallað er um hækkanir á hlutabréfamarkaði á liðnu ári, m.a. ólíka þróun meðal atvinnugreina og þróun hlutabréfaverðs á Norðurlöndunum.
  • Týr er á sínum stað og fjallar um gosið á Alþingi auk Hugins og munins.
  • Þá fjallar Óðinn um kjaramálin og áhyggjur Seðlabankans.
Stikkorð: ís Emmessís Huppa Kolka