Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,31% á milli mánaða og mælist verðbólga nú 2,3%. Vísitala án húsnæðis mælist 1%, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Þetta er í takti við væntingar markaðsaðila að greiningardeildir bankanna og aðrir bjuggust almennt við þessari þróun. Í apríl í fyrra mældist 3,3% verðbólga en ári fyrr 6,4%.

Fram kemur í umfjöllun Hagstofunnar um verðbólguþróunina að kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði jókst um 1,4%. Verð á farsímaþjónustu lækkaði um 7,6% og dagvörur um 0,6%. Þá hækkaði verð á bensíni og olíum um 2,6% og hafa flugfargjöld hækkað um 6,0%.