„Húsnæðislánin eru ein af ástæðunum fyrir því að það er mikilvægt að forðast það að verðbólgan fari aftur á skrið,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í samtali við Fréttablaðið .

Þar er greint frá því að verðtryggð húsnæðislán nemi nú um 1.200 milljörðum, og hækkun verðbólgu um eitt prósent hækki lánin því um tólf milljarða. Sigmundur segir að fátt dragi jafnmikið úr kaupmætti og komi í veg fyrir kaupmáttaraukningu og verðbólguskot.

„Verðbólgan étur upp þessa niðurfærslu á lánunum. Niðurfærslan er náttúrlega verðbólguhvetjandi, það er bara spurning um hversu mikil áhrifin verða. Allar þessar stærðir tengjast hins vegar. Um leið og laun byrja að hækka fer fasteignaverð að hækka,“ segir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Fréttablaðið. Það sé því ekki ólíklegt að það eigið fé sem búið var til hjá fólki með skuldaniðurfærslunni haldi sér.