Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í apríl 2015 er 427,0 stig (maí 1988 = 100) og hækkaði um 0,14% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 395,6 stig og hækkaði um 0,05% frá mars. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands .

Helsti áhrifavaldur til hækkunar vísitölunnar var kostnaður vegna liðarins húsnæði, hiti og rafmagn, en hann hækkaði um 0,43% milli mánaða. Hafði það 0,12% áhrif á vísitöluna til hækkunar.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,4% og vísitala án húsnæðis hefur lækkað um 0,1%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,8% sem jafngildir 7,6% verðbólgu á ári (6,7% verðbólgu fyrir vísitöluna án húsnæðis).