Í dag hafa Viðskiptaráð og Samtök verslunar og þjónustu sent frá sér fréttatilkynningar þar sem verðkannanir verðlagseftirlits ASÍ á rafmagnstækjum og byggingarvörum er gagnrýnt. Þessar vörur báru áður vörugjöld, en gjöld á algengum vörum í þessum vöruflokkum féllu niður um áramótin.

Niðurstöður kannana ASÍ eru þær að niðurfelling vörugjaldanna hafi ekki skilað sér sem skyldi í verði til neytenda, en í tilkynningum VÍ og SVÞ eru niðurstöðurnar gagnrýndar. Í tilkynningu SVÞ eru vinnubrögð ASÍ sögð óvönduð og að framkvæmd kannananna sé með þeim hætti að útilokað sé fyrir fyrirtæki að bera hönd fyrir höfuð sér og svara með nákvæmni verðþróun einstakra vara.

Í tilkynningu sinni telja SVÞ til þrjú atriði sem hafa beri í huga við athuganir sem þessa:

Í fyrsta lagi hafi fjölmargar verslanir lækkað verð á stórum hluta þeirra rafmagnstækja og byggingarvara sem afnám vörugjalda tók til strax og þegar frumvarp um afnámið var lagt fram í september 2009. „Lækkun á verði þessara vara hefur því í mörgum tilfellum verið komin fram þegar ASÍ gerir verðkönnun sína í október. Samanburður á verði í október annars vegar og í apríl hins vegar gefur því alls ekki rétta mynd af verðþróun þessara vara,“ segir í tilkynningunni.

Í öðru lagi sé veltuhraði varanna sem um ræðir mjög misjafn. Í sumum tilfellum sé varan í versluninni í heilt ár áður en hún selst. „Það má hverjum manni ljóst vera að áhrif niðurfellingar vörugjalda af slíkum vörum er ekki komin fram að fullu þremur til fjórum mánuðum eftir að afnám vörugjalda tók gildi.“

Í þriðja lagi segir í tilkynningunni að stór hluti þeirra vara sem hér um ræðir sé eru keyptur inn í bandarískum dollurum eða verðlagðar í þeim gjaldmiðli af birgjum íslenskra fyrirtækja. Frá áramótum til aprílmánaðar hafi dollars styrkst um 12,5% gagnvart krónu og gengi norsku krónunnar um 3,9%. Við það bætast verðhækkanir frá byrgjum upp á 3%-5% á sama tíma. „Þessi óhagstæða þróun dregur því óhjákvæmilega úr áhrifum afnáms vörugjaldanna.“