„Viðræður Sjómannasambandsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um nýjan kjarasamning hafa siglt í strand. Tilboði sjómanna var hafnað og viðræðum slitið. Mikið ber í milli. Hafist verður handa við kosningu um verkfall innan skamms.“ Þetta kemur fram í frétt á vef Fiskifrétta .

„Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að síðustu fundir með SFS hafi verið úrslitafundi um hvort samningar næðust fyrir verkfallsaðgerðir.

„Við það að SFS hafnaði tilboði okkar snögglega er ljóst að við munum ekki ná saman. Því förum við núna í að skipuleggja kosningar um verkfallsboðun,“ segir Valmundur. „Verði það svo samþykkt munu aðgerðir hefjast á fyrstu dögum nóvembermánaðar með tilheyrandi búsifjum fyrir þjóðarbúið.“

Verkfall hefði víðtæk áhrif bæði fyrir landvinnslufólk sem og aðrar afleiddar greinar sjávarútvegsins.

Ekki hefur verið boðað til nýrra funda hjá ríkissáttasemjara.“