Hilmar Konráðsson forstjóri Verktaka Magna ehf. segir að vegna fyrirséðs verkefnaskorts á Íslandi sé nú verið að skoða útboð í öll möguleg verk í Noregi og Færeyjum. Þar er efst á blaði lenging flugvallarins í Vogum (Vágum) í Færeyjum.

„Við erum þó heppnir hjá Magna að hafa verið með góða verkefnastöðu þegar kreppan skall á og höfum ekki þurft að segja upp nema 10-15% af mannskapnum. Við vorum 65 en erum nú 44. Það lýtur hins vegar mjög illa út með framhaldið.” Hilmar segir verkefnastöðuna hjá fyrirtækin góða í augnablikinu og verði það út janúar. „Síðan er ekkert.”

Forval í Færeyjum

Í Færeyjum á að fara að lengja flugbrautina í Vágum. Verkið er að fara í forval og eftir áramótin verða tilboðin opnuð. Væntanlega verður svo hafist handa með framkvæmdir í mars eða apríl, en verkið mun taka um eitt og hálft ár. Þarna er um að ræða talsvert mikið verk upp á marga milljarða íslenskra króna. Fylgja þessu miklar jarðvegsfyllingar, enda ekki möguleikar á lengingu vallarins nema með mikilli fyrirhöfn vegna þrengsla. Hilmar segir sterkar líkur á að íslenskt fyrirtæki geti náð þessu verkefni vegna gengisstöðunnar.

Lenging Vága- flugvallar er talin lífsnauðsynleg ef takast eigi að laða að fleiri erlenda ferðamenn til eyjanna og um leið lendingar erlendra flugfélaga. Rætt hefur verið um fjóra möguleika varðandi lengingu á lendingarbraut sem nú er 1.250 metrar að lengd. Þar hefur verið rætt um að lengja hana í 1.400 metra, 1.450 metra, 1.600 metra eða 1.800 metra. Er kostnaður við mismunandi leiðir talinn hlaupa á 170-400 milljónum danskra króna, eða frá rúmum 4 milljörðum upp í 10 milljarða íslenskra króna, samkvæmt skýrslu um Vágar Lufthavn frá 2006.

Lenging og ný flugstöð

Málið var kynnt á fundi í Færeyjum 30. September sl. Þar kom fram að rætt er um að lengja flugvöllinn í 1.799 metra, eða um 350 metra til austurs og 200 metra til vesturs, auk byggingar á nýrri flugstöð. Þar af kosti lenging flugbrautar 286 milljónir dkr. með skekkjumörk upp á 22 milljónir. Bygging flugstöðvar er talin kosta 126 milljónir króna. Samanlagt er þetta talið kosta 412 milljónir danskra króna eða nærri 10,3 milljarða íslenskra króna.

Mikill munur á kostnaði við tiltölulega litla lengingu umfram 1.450 metra felst í því að þá eru menn komnir út í miklar landfyllingar út í sjó. Undirbúningur framkvæmda er þegar hafinn og í október hófust rannsóknir á botnlögum í sjó við austurenda vallarins. Þá fer eins og fyrr segir í hönd forval á verktökum til að taka þátt í útboði.