Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að biðja íslenska ríkið um að endurheimta ríkisaðstoð sem það veitti Verne gagnaveri á gamla Keflavíkurflugvellinum. Reykjanesbær á sömuleiðis að endurheimta fasteigna- og gatnagerðargjöld frá fyrirtækinu fyrir síðastliðin þrjú ár. Ríkisaðstoðin hljóðaði upp á 220 milljónir króna.

ESA komst hins vegar að því að þeirri niðurstöðu að orkukaupasamningur og lóðaleigusamningur Verne við Landsvirkjun fælu ekki í sér ríkisaðstoð.

Ríkisaðstoðin var veitt árið 2008 þegar ríkið seldi Verne fimm byggingar á gamla varnarliðssvæðinu við Keflavíkurflugvöll undir markaðsvirði. Muninn á markaðsvirði og söluvirði bygginganna fimm þarf nú ríkið að endurheimta frá fyrirtækinu.

Að þessu viðbættu hefur ESA komist að þeirri niðurstöðu að undanþágur sem Reykjanesbær veitti Verne árið 2009 séu ósamræmanlegar EES samningnum og skuli því einnig endurheimta frá Verne.

Fram kemur í tilkynningu frá ESA að Íslensk yfirvöld áformuðu upphaflega að veita svæðisbundna ríkisaðstoð til byggingar gagnaversins í formi undanþágu frá opinberum gjöldum. ESA hafði hinsvegar efasemdir um að slík ríkisaðstoð samræmdist EES samningnum og opnaði því formlega rannsókn í nóvember 2010.

ESA segir í tilkynningu sinni sem gefin var út í dag að framfylgja skuli endurheimtuákvörðuninni innan fjögurra mánaða frá deginum í dag að telja ásamt vöxtum og vaxtavöxtum frá þeim tíma er aðstoðin var veitt á árunum 2008 og 2009.