Tap síðasta árs hjá HB Granda voru 1.980 milljónir króna, en hagnaður var 547 milljónir króna árið áður og er því um að ræða mikil umskipti á rekstri félagsins. Rekstrartekjur ársins voru 13.658 milljónir króna en voru 10.823 milljónir króna árið áður.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 2.685 milljónum króna eða 19,7% af rekstrartekjum en var 1.633 milljónir króna eða 15,1% árið áður. Hækkun á þessu EBITDA hlutfalli réðst að stærstum hluta af hærra afurðaverði og veikari krónu. Á móti kom að olíuverð hækkaði um 20% á milli ára og tap af rekstri dótturfélaga varð meira.


Rekstrarhagnaður af eigin starfsemi var 1.242 milljónir króna, en var 430 milljónir króna á sama tímabili árið áður. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 3.659 milljónir króna en voru jákvæð um 235 milljónir króna árið áður. Munar þar miklu um gengismun og verðbætur lána sem voru neikvæð um 2.957 milljónir króna  árið 2006, en jákvæð um 810 milljónir króna árið áður. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 149 milljónir króna, en um 74 milljónir króna árið áður. Tap fyrir tekjuskatt var 2.267 milljónir króna á móti 739 milljóna króna hagnaði árið 2005.