Íbúðalánasjóður hefur á grundvelli nýlegra breytinga á lögum um húsnæðismál hleypt af stokkunum nýjum flokki lána til leiguíbúða, leiguíbúðalán með föstum vöxtum. Vextir slíkra lána verða þeir sömu og vextir almennra íbúðalána Íbúðalánasjóðs, nú 4,15%.

Unnt verður að greiða lánin upp hvenær sem er án sérstakrar þóknunar.

Á grundvelli nýrrar reglugerðar er Íbúðalánasjóður einnig að undirbúa nýjan lánaflokk vegna leiguíbúða þar sem boðið verður upp á fasta vexti með lægra vaxtaálagi gegn því að lántakendur afsali sér rétti til að greiða upp lán fyrir gjalddaga og að greiða aukaafborganir af láni.

Í frétt á heimasíðu Íbúðalánasjóðs kemurfram að sé lán með lægra vaxtaálagi greitt upp fyrir lok lánstímans eða greiddar af því aukaafborganir skal greiða sérstaka þóknun til Íbúðalánasjóðs samkvæmt gjaldskrá Íbúðalánasjóðs. Unnið er að gerð reglna um slíka þóknun.

Þá hefur stjórn Íbúðalánasjóðs ákvarðað vexti almennra leiguíbúðalána Íbúðalánasjóðs með breytilegum vöxtum vegna ársins 2005. Vextir almennra leiguíbúðalána með breytilegum vöxtum verða 4,5% frá áramótum, en vextir almennra leiguíbúðalána voru 4,9%.

Vaxtalækkunin nær bæði til almennra leiguíbúðalána sem tekin hafa verið og nýrra leiguíbúðalána með breytilegum vöxtum. Unnt er að greiða þessi lán upp án sérstakrar þóknunar.

Vextir almennra leiguíbúðalána með breytilegum vöxtum eru því orðnir þeir sömu og vextir af lánum vegna sérstaks átaks til að efla almennan leigumarkað samkvæmt samkomulagi félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra árið 2001.

Vextir félagslegra leiguíbúðalána haldast óbreyttir 3,5%.