Landsvirkjun gefur ekki upp vaxtakjör á 10,5 milljarða króna sambankaláni sem fyrirtækið tilkynnti um í dag. Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar, segir ætlunina hafa verið að upplýsa um vaxtakjör en bankarnir ekki gefið græna ljósið á það. Bankarnir sem lána Landsvirkjun eru Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn.

Rafnar Lárusson
Rafnar Lárusson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Rafnar segir kjörin allsæmileg miðað við stöðuna á fjármálamörkuðum í dag. „Eins og gefur að skilja eru kjörin verri en á lánum sem við tókum árið 2005,“ segir hann.

Landsvirkjun hefur heldur ekki gefið upp vaxtakjör annarra lána sem tekin hafa verið upp á síðkastið, svo sem alþjóðlegu sambankaláni sem tilkynnt var um í vikunni. Fyrirtækið hefur ekki fengið áminningu eftirlitsaðila vegna þessa.

Eins og greint var frá í dag hefur Landsvirkjun tryggt sé fjármögnun upp á 35 milljarða króna til allt að fimm ára. Markmiðið sé að tryggja aðgang að lánsfé ef hefðbundnar fjármögnunarleiðis lokast tímabundið.

Rafnar bendir á að ákveðið hafi verið að ganga frá lánunum nú þótt gjalddagi þeirra renni ekki upp fyrr en næsta vetur. Um eðlilega áhættustýringu sé að ræða. „Við vitum ekki hvað næsta ár ber í skauti sér og vildum tryggja okkur lán ef aðstæður á mörkuðum versna,“ segir hann.