Hlutabréf hækkuðu lítillega í Evrópu í vikunni sem leið. Það voru fyrst og fremst bílaframleiðendur og byggingafyrirtæki sem leiddu hækkun vikunnar.

Dow Jones Stoxx 600 vísitalan hækkaði um 0,6% í vikunni en hefur engu að síður lækkað um 13% á þessu ári og er óróleika á bandarískjum fjármálamörkuðum þar helst kennt um.

Vísitöluviðmið jukust á öllum 18 evrópsku mörkuðunum nema á Írlandi og í Sviss. DAX vísitalan í Þýskalandi hækkaði um 0,1%, CAC vísitalan í Frakklandi hækkaði um 1,3% og FTSE 100 vísitalan í Bretlandi hækkaði um 0,1%.

Euro Stoxx 50, sem mælir vísitölur fyrir evrusvæðið hækkaði um 0,5% í vikunni.

Eins og greint hefur verið frá áður var vaxandi óstöðugleiki í Bandaríkjunum í lok vikunnar og hafði það nokkur áhrif á markaði í Evrópu. Citigroup bankinn sagði í vikunni að stærstu bankar Evrópu myndu að öllum líkindum þurfa að afskrifa um 18,3 milljarða bandaríkjadala eða um 1200 milljarða íslenskra króna.

Bílaframeiðendur á góðu róli

Peugeot bílaframleiðandinn hækkaði um 7,6% í vikunni og er það mesta hækkun fyrirtækisins á einni viku frá því í október. Félagið kynnti hálfsárs afkomu sína upp á 38 milljarða króna (393 millj.evra) en það er viðsnúningur frá tapi á fyrri árshelmingi upp á 12 milljarða króna (123 millj.evra).

Nýjustu bílar Peugeot, 207 og Picasso hafa selst betur en gert var ráð fyrir auk þess sem framleiðslukostnaður hefur lækkað.

Annar bílaframleiðandi, Daimler hækkaði um 5,8% í vikunni og kynnti hagnað á fjórða ársfjórðungi upp á tæplega 168 milljarða króna (1,7 mi.evra). Þá er meðtalin sala Chrysler framleiðslu fyrirtækisins í Bandaríkjunum auk fjöldauppsagna í Mercedes-Benz framleiðslu fyrirtækisins.

Sá hluti sem snýr að bíla og varahlutaframleiðslu í Dow Jones Stoxx 600 vísitölunni hækkaði um 3,8% í vikunni og er það mesta hækkun frá því í nóvember. Vísitalan skiptist í 18 meginflokka og hækkaði þessi flokkur mest.

Þá hækkaði Bilfinger Berger, næst stærsti byggingarverktakinn í Þýskalandi um 14% eftir að hafa kynnt um batnandi afkomu á fjórða ársfjórðung.

Safran SA, sem er næst stærsti þotuhreyflaframleiðandinn í Evrópu hækkaði um 19% eftir að hafa tilkynnt um tvöfalt meiri hagnað fyrir 2007 en gert hafði verið ráð fyrir. Fyrirtækið hefur aukið sölu til bæði Airbus og Boeing.

Fjármálafyrirtæki lækka

Líkt og í Asíu og Bandaríkjunum lækkuðu fjármálafyrirtæki. UBS lækkaði um 12% í vikunni eftir að hafa kynnt um versnandi afkomu á fjórða ársfjórðung og forstjóri fyrirtækisins, Marcel Rohner vildi ekki tjá sig um afkomu fyrsta ársfjórðungs. Bradford & Bingley lækkuðu um 27% og var það mesta lækkunin í DJStoxx 600 vísitölunni.