Róbert Wessmann, forstjóri Alvogen, vildi koma höggi á Harald Johannessen, fyrrverandi ríkisslögreglustjóra, og annan ónafngreindan, háttsettan embættismann. Ástæðan er sögð þræta hans og Matthíasar Johannessen í tengslum við skaðabótamál þess síðarnefnda vegna viðskipta með bréf í Aztiq Pharma. Þetta hefur Stundin eftir tveimur ónafngreindum heimildamönnum.

Botn fékkst í deilu aðilanna með dómi Hæstaréttar árið 2018 þar sem Róbert, Árni Harðarson og Magnús Jaroslav Magnússon voru dæmdir til að greiða Matthíasi 640 milljónir króna, auk skaðabótavaxta og dráttarvaxta, þar sem þremenningarnir hefðu virt forkaupsrétt Matthíasar að bréfum í Aztiq Pharma að vettugi. Með vöxtum nam fjárhæð skaðabótanna um 1,4 milljarði króna.

Stundin hefur eftir heimildamönnum sínum að eftir að dómsmálinu lauk hafi Matthías ekki verið ofarlega á jólakortalista Róberts. Hann hafi til að mynda sent kæru til lögreglunnar, undirbúið dómsmál gegn Matthíasi og „lagði á ráðin um að koma höggi á föður hans“, það er þáverandi ríkislögreglustjóra.

Halldór Kristmannsson, náinn samstarfsmaður Róberts til tæpra tveggja áratuga, sté fram í upphafi viku og sagði frá meintum líflátshótunum og ógnandi skilaboðum sem Róbert á að hafa sent tilteknum aðilum. Þá fullyrti Halldór að hann hefði orðið fyrir líkamsárás af hálfu forstjórans og orðið vitni að annarri.

„Ég tel að morðhótanir, líkamsárásir og svívirðilegar ásakanir, er varða meinta óvildarmenn og ærumeiðingar í þeirra garð, sé í raun óverjandi hegðun forstjóra alþjóðlegra fyrirtækja. Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um hæfi hans sem stjórnanda. Hinsvegar vona ég að þessi fyrirtæki blómstri í framtíðinni, þannig að ég sem hluthafi, geti verið stoltur af framgangi þeirra,“ segir meðal annars í yfirlýsingu sem Halldór sendi fjölmiðlum.

Samkvæmt heimildum Stundarinnar er feðgunum Matthíasi og Haraldi kunnugt um illan hug Róberts í sinn garð og meint ráðabrugg hans gegn þeim. Að sögn miðilsins skoða þeir nú réttarstöðu sína vegna málsins.