Háttsettir embættismenn Evrópusambandsins, Seðlabanka Evrópu og Alþjóða gjaldeyrissjósins eru væntanlegir til Grikklands til að sannfæra þarlend stjórnvöld um að þau geti staðið við áætlun um að minnka fjárlagahallann um 24 milljarða evra. Er það talið nauðsynlegt til að eyða óvissu um að gríska ríkið geti ekki staðið undir greiðslum opinberra skulda.  Búist er við að embættismennirnir dvelji í Grikklandi í tvo daga og er áætlað að þeir mæti á svæðið 9. maí en ferðinni getur verið flýtt til 5. maí. Þetta kemur fram í The Telegraph í dag.

Forsætisráðherra Grikklands, George Papandreou, hefur staðfastlega neitað því um helgina að ríkið verði neytt til að endurskipuleggja skuldir sínar strax - hugsanlega um þessa helgi. Talsmaður ríkisstjórnarinnar hefur tekið í sama streng og fjármálaráðherrann hefur sagt orðróminn úr lausu lofti gripinn.

Þrátt fyrir andmæli fulltrúa ríkisstjórnarinnar hafa grískir fjölmiðlar haldið áfram að segja fréttir af þessum áformum. Útbreiddasta fréttastöð landsins hélt því fram í dag, samkvæmt heimildum innan úr stjórnkerfinu, að í versta falli væri frekar lengt í endurgreiðsluferlinum í stað þess að endurskipuleggja skuldirnar. Samkvæmt blaðinu To Vima gæti Grikkland farið fram á það til viðbótar að fella niður 30% af skuldunum en það tæki allt að sex mánuði að ná því í gegn.