Stjórn HB Granda vill breyta nafni og vörumerki HB Granda í Brim og Brim Seafood. „Nýtt vörumerki og nafn þjóna vel tilgangi félagsins sem er að markaðssetja og selja afurðir, sem félagið veiðir og vinnur, á verðmætum alþjóðamörkuðum. Nafni félagsins var síðast breytt fyrir 15 árum og vísaði þá til sameiningar tveggja félaga, Haraldar Böðvarssonar og Granda, sem áður varð til við sameiningu Ísbjarnarins og Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Breytingarnar að þessu sinni undirstrika aukna áherslu félagsins á markaðs- og sölumál sem birtist m.a. í kaupum á sölufélögunum í Asíu.“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Brims, nú Útgerðarfélags Reykjavíkur, varð stærsti hluthafi HB Granda á síðasta ári með ríflega þriðjungshlut. Guðmundur tók jafnframt við sem forstjóri HB Granda í kjölfar kaupanna. Útgerðarfélag Reykjavíkur hefur afhent HB Granda nafnið Brim til eignar og afnota.

Brim varð til árið 2003 sem sem sjávarútvegsfélag Eimskipafélagsins og átti þá Harald Böðvarsson, Skagstrending og Útgerðarfélag Akureyrar. Við sameiningu Útgerðarfélags Akureyrar, sem var þá komið í eigu Útgerðarfélagsins Tjalds, við ÚT ári síðar varð Brim nafnið á sameinaðu félagi.

„Brim er einfalt og þjált nafn sem er ásamt vörumerkinu Brim Seafood þekkt á alþjóðamörkuðum fyrir sjávarafurðir. Vörumerkið myndar þrjár öldur. Öldurnar tákna annars vegar brim, sem brýtur nýja leið í viðskiptum, og hins vegar mynda þær fisk, sem er tákn fyrir afurðir fyrirtækisins.  Blái liturinn stendur fyrir lit sjávarins og silfrið táknar þau verðmæti sem Brim skapar,“ segir í tilkynningin frá HB Granda.

Samþykktu kaup á sölufélögum

Stjórn HB Granda samþykkti jafnframt í dag kaup á sölufélögum í Asíu af Útgerðarfélagi Reykjavíkur fyrir 31,1 milljón evra og að leggja þá fyrir hluthafafund til samþykktar. Tilgangur kaupanna er sagður vera að styrkja sölu- og markaðsstarf félagsins á alþjóðamörkuðum, einkum í Asíu.