Xi Jinping, forseti Kína, er nú staddur í Pakistan en búist er við því að þar muni hann kynna fjárfestingu kínverskra stjórnvalda upp á 46 milljarða Bandaríkjadali. Fjárhæðin jafngildir um 6.300 milljörðum íslenskra króna. BBC News greinir frá málinu.

Fjárfestingin er talin munu fela í sér byggingu hraðbrautar, lestarbrautar og leiðslukerfis milli ríkjanna tveggja. Hraðbrautin verður 3.000 kílómetra löng og mun liggja frá Gwadar í Pakistan til Xinjiang-héraðs í Kína.

Kínverjar sjá tækifæri í verkefninu þar sem það mun veita þeim greiðari aðgang að Indlandshafi gangi áætlanirnar eftir. Pakistanar vonast jafnframt til þess að fjárfestingin muni hafa jákvæð áhrif á efnahag landsins.

Jinping mun dvelja í landinu næstu tvo daga og eiga þar fundi með Mamnoon Hussain, forseta Pakistan, og Nawaz Sharif, forsætisráðherra landsins.