Gert er ráð fyrir stofnun nýrra hagsmunasamtaka atvinnulífsins sem þó verða byggð á þeim grunni sem nú myndar Samtök atvinnulífsins (SA) nái hugmyndir um uppstokkun innan samtakanna fram að ganga. Innan SA hefur lengi verið rætt um uppstokkun á samtökunum í heild sinni eins og fram kom í hér í Viðskiptablaðinu um miðjan ágúst sl. Hluti af þeirri umræðu var sá að stofna sérstaka efnahagsstofu innan SA sem myndi taka við hlutverki Viðskiptaráðs Íslands (VÍ).

SA og VÍ skipuðu fyrr á þessu ári sameiginlegan starfshóp sem fékk umboð til að vinna hugmyndir er þetta varðar og sá hópur hefur nú skilað vinnuskjali til stjórna aðildarsamtakanna. Samkvæmt skjalinu er sem fyrr segir gert ráð fyrir stofnun nýrra samtaka. Hugmyndin með stofnun nýrra hagsmunasamtaka er fyrst og fremst sú að byggja upp sterkari og hnitmiðaðri samtök en nú eru og sameina starfsemi samtakanna til muna

Á meðal hugmynda er að fækka aðildarfélögum SA úr sjö í fjögur. Þá er jafnframt lagt til að Félag atvinnurekenda og Viðskiptaráð verði hluti af nýju samtökunum, en þau eru hvorugt aðili að SA í dag.

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.