Efnahags- og viðskiptanefnd skilaði í gær nefndaráliti vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Í því leggst nefndin gegn breytingum á núverandi reglum um breytileg starfskjör (þ.e. kaupauka) starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Frumvarpið snýst að mestu um að innleiða evrópskt regluverk sem byggt er á Basel III staðlinum en þar er gert ráð fyrir að kaupaukar geti numið allt að 100-200% af árslaunum einstakra starfsmanna. Samkvæmt núgildandi lögum má þetta hlutfall ekki vera meira en 25% af árslaunum og í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að það hlutfall muni breytast. Málið mun fara til þriðju umræðu á Alþingi í dag.

Þegar Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, kynnti nefndarálitið á Alþingi í gær sagði hann að nefndin hefði verið sammála um að reglurnar mættu ekki ýta undir áhættusækni hjá starfsmönnum fjármálafyrirtækja.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .

Leiðrétting: Í fyrri útgáfu þessarar fréttar stóð að í frumvarpinu væri gert ráð fyrir að kaupaukar geti numið allt að 100-200% af árslaunum einstakra starfsmanna. Rétt er að evrópskt regluverk sem frumvarpið miðar við gerir ráð fyrir slíkri heimild en samkvæmt frumvarpinu er miðað 25% af föstum árslaunum starfsmanna. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.