Í frumvarpi sem þingflokkur Vinstri grænna hefur lagt fram á Alþingi er lagt til að sparisjóði, sem breytt er í hlutafélag, verði óheimilt að nota orðið „sparisjóður“ í heiti sínu. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Jón Bjarnason.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að sparisjóðirnir hafi verið stofnaðir á grunni hugsjóna félagshyggju og samvinnu til að byggja upp atvinnu- og menningarlíf. „Litið var á stofnfjárhafa sem ábyrgðarmenn og markmiðið var ekki að hámarka arðgreiðslur heldur þjóna samfélaginu,“ segir í greinargerð.

Hins vegar beri hlutafélagsbanki engar slíkar samfélagsskyldur. Meginmarkmið hans sé að hámarka ábata og arð eigenda hlutafjárins. „Á því er grundvallarmunur“, segir í greinargerð.

„Það er því verið að beita blekkingum ef fjármálastofnun er leyft að bera heitið sparisjóður í nafni sínu þótt hún hafi horfið frá flestum grunnþáttum sem samfélagið leggur í hugtakið sparisjóður. Samkvæmt frumvarpinu verður því óheimilt að nota það með öðrum orðum eða skammstöfunum í firmaheiti fjármálastofnunar.“

Frumvarpið má sjá í heild sinni hér.