Hagstæðara er að byggja nýjar höfuðstöðvar Landsbankans og flytja starfsemina undir eitt og nýtt þak miðað við núverandi ástand. Flutningur gæti jafnframt leitt til þess að Landsbankinn greiði ríkinu meiri arð til lengri tíma litið, að sögn Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans.

Fjallað er í dag um kaup Landsbankans á lóð á Hörpureitnum vði Austurhöfnina í Reykjavík fyrir 957 milljónir króna. Kaupin hafa verið gagnrýnd, m.a. af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Steinþór segir í samtali við Markaðinn , fylgiblað Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, að það sé ekki góð þróun ef 63 þingmenn Alþingis eigi að stjórna Landsbankanum.

Landsbankinn rekur starfsemi í sextán húsum og þar af eru fjórtán í miðborginni. Flest eru hluti af höfuðstöðvunum við Hafnar- og Austurstræti og byggð frá 1924-1970. Steinþór segir að taka þurfi húsnæðið í gegn auk þess sem það sé ekki hagkvæmt fyrir bankann að leigja húsnæði í langan tíma.

„Fyrir okkur snýst þetta um hvort við eigum að fara í mikla fjárfestingu í núverandi eða svipuðu húsnæði eða stíga skrefinu lengra og fara í hagkvæmt húsnæði sem hentar okkur þar sem nánast öll starfsemin yrði á einum stað," segir Steinþór.

Hann heldur áfram:

„Við þurfum líka að horfa til þess að við höfum greitt um 30 milljarða króna í arð á síðustu sex mánuðum, að mestu til ríkisins. Það þarf samt að fara varlega í að lækka eigið fé bankans, þó það sé firna sterkt. Bankinn stendur ágætlega með lausafé en auðvitað er þetta stór fjárhæð sem gæti farið í framkvæmdirnar. Hún verður þó líklega um 0,6-0,8 prósent af efnahagsreikningi bankans, eða vel innan við tíu milljarða króna," segir Steinþór.