*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 22. mars 2021 15:04

Vill horfa til atvinnu frekar en skulda

Kristrún Frostadóttir segir atvinnustig eiga að vera útgangspunkt fjármálaáætlunar frekar en skuldastaða ríkisins.

Júlíus Þór Halldórsson
Kristrún Frostadóttir hætti sem aðalhagfræðingur Kviku í lok janúar til að einbeita sér að framboði sínu til Alþingis fyrir hönd Samfylkingarinnar.
Haraldur Guðjónsson

Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi Suður og fyrrverandi aðalhagfræðingur Kviku banka, segir í röð tísta að útgangspunktur stefnunnar í ríkisfjármálum næstu árin eigi að vera atvinnustigið, fremur en skuldastaðan, eins og verið hefur.

Kristrún segir umræðuna um hallarekstur ríkisins og tilheyrandi skuldasöfnunar vegna kórónukreppunnar vera á nokkrum villigötum. 80% hallans í fyrra hafi verið vegna samdráttar í hagkerfinu og atvinnuástandsins, en ekki meðvitaðri ákvörðun um aukin útgjöld umfram tekjur.

„Þú segir ekki upp fólki hjá ríkinu í atvinnukreppu né losar þig undan kjarasamningum,“ segir hún um valkostafæð stjórnvalda andspænis ástandinu sem upp hafi komið í efnahagsmálum og ríkisfjármálum vegna faraldursins.

Hún telur viðbúið að umræðan um fjármálaáætlun sitjandi ríkisstjórnar, sem birt verður nú í lok dags, muni hvelfast mikið til um skuldastöðu og -söfnun, en aðalmálið sé „ekki skuldirnar í dag, heldur atvinnuleysið á morgun. Við fáum þetta öll í fangið síðar meir ef of lítið er gert í fyrra, í ár.“

Að lokum bendir hún á að hvergi í meðlimalöndum efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) – alþjóðastofnunar sem telur 37 af þróuðustu ríkjum jarðar – hafi atvinnuleysi aukist jafn mikið og á Íslandi. Aukninguna mælir hún sem atvinnuleysi í dag umfram meðaltal áranna 2015-2019, sem telur ríflega 4% hér á landi.