Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, telur að íhuga eigi afnám stimpilgjalda sem ríkissjóður innheimtir næst þegar samdráttur verður í efnahagslífinu. Hinsvegar telur Árni ekki vera tímabært að afnema stimpilgjöldin nú þar sem að slík aðgerð gæti haft þensluhvetjandi áhrif. Þetta kemur fram í viðtali við Árna í Viðskiptablaðinu í dag.


Í viðtali við Viðskiptablaðið sem birtist í dag kemur fram að Árni telur forsendur matsfyrirtækisins Fitch um að lækka lánshæfismat ríkissjóðs vera óréttmætar. Hann bendir á að staða ríkissjóðs sé sterk og ekki sé fyrirsjáanlegt að hann þurfi að standa í miklum lántökum á næstu misserum. Hann segir mat skýrslu Fitch vera fyrst og fremst viðvörun til þeirra fjárfesta sem hafa tekið stöðu í hinum svokölluðu jöklabréfum: "Þeir eru að benda mönnum á að fara varlega í slíkri útgáfu."


Fram kemur í nýrri skýrslu að afgangur af rekstri ríkissjóðs verði aðeins 1,1% af landsframleiðslu á þessu ári meðan að hann var 5,3% í fyrra. Árni segir það sé rétt að menn hafi slakað á klónni á í ríkisfjármálum en það hafi verið gert til þess að vega á móti því að umsvif framkvæmdanna á Austurlandi fari nú minnkandi. Einnig er ráðherrann ósammála mati Fitch um líkurnar á harðri lendingu í hagkerfinu: "Þessir aðilar hafa varað við þessu í fleiri ár. En síðan rætist ekkert að þessu. Við erum að slaka á klónni til þess að vega upp á móti minni fjárfestingu í hagkerfinu og til þess stuðla að samfellu í hagstjórninni. Hagspár okkar gera ráð fyrir minni hagvexti og þær gera ráð fyrir samdrætti í þjóðarútgjöldum þrátt fyrir að við erum að slaka á klónni."