Bónuskerfi og aðrir starfshættir sem voru við lýði hjá fjármálafyrirtækjum fyrir hrun og hafa verið að líta dagsins ljós að nýju eru nokkuð sem Fjármálaeftirlitið (FME) þarf að fylgjast vel með, að mati Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Hún vill láta skoða hvort eftirlitsstofnanir, hvort heldur er FME eða aðrar stofnanir, séu í raun og veru vikar í eftirliti sínu.

Ragnheiður sat með Oddný G. Harðardóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, um tillögur hagræðingarhóps á vegum ríkisstjórnarinnar í Ríkisútvarpinu (RÚV) í morgun.

Oddný benti á að á meðal tillagna sé komið inn á eftirlitskerfið og velti því upp hvort aðeins eigi að halda úti eftirliti þar sem ávinningur er meiri en kostnaðurinn og hvernig eigi að meta ávinninginn. Hún benti m.a. á að FME hafi verið veikburða fyrir hrun.

„Eftirlitið var ekki að skila því sem það átti að gera samkvæmt lögum,“ sagði Ragnheiður og velti því upp hvort eftirlit FME hafi batnað eftir hrun þótt framlög til þess hafi aukist mikið.