Launavísitalan hækkaði um 2,3% á milli mánaða í febrúar. Hún hefur hækkað um 5,2% á síðastliðnum tólf mánuðum, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að í launavísitölu febrúarmánaðar gæti áhrifa hækkana sem kveðið var á um í kjarasamningum milli aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem undirritaðir voru 5. maí 2011. Í þeim var kveðið á um almenna hækkun launataxta um 3,25% hinn 1. febrúar 2013.

Þá segir Hagstofan jafnframt að vísitala kaupmáttar launa í mánuðinum hafi hækkað um 0,7% frá í janúar. Síðustu tólf mánuði hefur vísitala kaupmáttar launa hækkað um 0,4%.