Í ljósi þess hve skammt er til kosninga er eðlilegra að ákvarðanir tengdar stærri pólitískum málefnum og langtímaverkefnum í efnahagsmálum bíði þar til núverandi ríkisstjórn hefur endurnýjað umboð sitt eða önnur tekið við.

Þetta kemur fram í skoðun Viðskiptaráðs í dag en ástæður þess eru sagðar tvíþættar.

Annars vegar færi dýrmætur tími til spillis í orðaskak og rökræður í þingsölum og þjóðmálaumræðu tengdar málum sem ekki eru hluti bráðavandans.

Hins vegar er hætt við að samstaða þjóðarinnar í þeim mikilvægu skammtímaverkefnum sem nú blasa við myndi rýrna verulega ef ráðist yrði í mörg umdeild verkefni.

„Það er því skynsamlegt að ný ríkisstjórn gangi rösklega til verks með það að markmiði að greiða úr þeim aðkallandi vanda sem heimili og fyrirtæki standa frammi fyrir í dag og leggja grunn að endurreisn hagkerfisins,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.

Viðskiptaráð segir að við nýrri ríkisstjórn blasa mörg viðamikil og erfið verkefni sem miða að því að endurreisa íslenskt hagkerfi. Staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar hafi versnað hratt og rekstrarumhverfi fyrirtækja samhliða.

Þá hafi gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum lækkað um nærri helming á skömmum tíma, hlutabréfamarkaður nær horfinn, atvinnuleysi aukist hratt, skuldir ríkisins margfaldast, verðbólga sé há og vextir einnig.

„Verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar endurspeglar að miklu leyti þessa erfiðu stöðu en vegna þess hversu starfstími hennar er naumur skiptir sköpum að viðhöfð verði skjót og markviss vinnubrögð,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.

„Afar mikilvægt er að tryggja skilvirka og hraða afgreiðslu þeirra verkefna sem mest knýr á að hrinda í framkvæmd. Því ætti ríkisstjórnin að leggja áherslu á óumdeild og hagnýt úrlausnarefni sem miða að því að greiða úr erfiðri stöðu efnahagsmála fremur en umdeild og pólitísk málefni. Ný ríkisstjórn, takmörkuð í tíma og þar með umboði, hefur í raun ekki annað hlutverk en að efla hag fyrirtækja og heimila til skemmri tíma.“

Skoðunina í heild sinni má nálgast hér.