Innlán Landsbankans hafa aukist um 200 milljarða króna það sem af er árinu og er aukningin að mestu erlendis. Ef útlánaaukningin er miðuð tólf mánuði aftur í tímann er hún enn meiri. Í frétt í Viðskiptablaðinu í dag er haft eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni, bankastjóra Landsbankans, að þetta muni auðvelda fjármögnun bankans í framtíðinni og líklegt að hann þurfi minna að treysta á alþjóðlegan skuldabréfamarkað.

Að sögn Sigurjóns er þessi innlánaaukning að mestu leyti að verða til erlendis, í útibúum bankans í Amsterdam, London og Guernsey. Innlánin í London koma til annars vegar í gegnum Heratable bank og hins vegar í gegnum útibú bankans þar. Aukning innlána bankans er þegar orðin mun meiri en áætlanir hans gerðu ráð fyrir.

Þriðja leiðin er í gegnum sparnaðarleiðina Icesave, sem Landsbanki Íslands hóf að bjóða í Englandi 10. október síðastliðinn og Sigurjón segir að hafi fengið frábærar viðtökur. Nú þegar munu vera komnir yfir 10 þúsund viðskiptavinir sem Sigurjón segir að sé verulega umfram áætlanir bankans. Því þakkar hann einfaldri og beinskeytri viðskiptahugmynd og mikilli fjölmiðlaumfjöllun í Englandi. Breskir fjölmiðlar hafa sagt frá því að Icesave bjóði nú bestu vaxtakjör á Bretlandi, en þar býðst breskum viðskiptavinum að stofna reikning á netinu með 5,2% vöxtum. Icesave ábyrgst að vextirnir verði 0,25% yfir innlánavöxtum seðlabanka Englands þar til í október 2009 og svo að vextir verði til jafns við grunnvexti bankans tvö ár eftir það. Skilyrði eru þó um að alltaf séu 250 pund á reikningnum og að lágmarksúttektarupphæð sé hundrað pund en aðeins er hægt að framkvæma úttektir rafrænt yfir á annan reikning.

"Þetta gengur mjög vel og er umfram áætlanir. Það hefur nánast engin auglýsingaherferð verið í gangi en þetta hefur fengið gríðarlega fjölmiðlaumfjöllun," Sagði Sigurjón. Hann segir að það séu að hans mati nokkrar ástæður fyrir því að þetta gangi vel. Í fyrsta lagi sé verið að bjóða mjög góð kjör. Í öðru lagi séu þau mjög einföld. Þriðja ástæðan tengist þeim fyrri og hefur haft í för með sér að um Icesave hefur verið fjallað á mjög jákvæðan máta. Sigurjón sagðist telja það vel þess virði að bjóða hærri vexti en samkeppnisaðilarnir. "Menn verða að setja þetta í samhengi. Eins og við gerum þetta þá erum við að bjóða góða vexti, eyðum eiginlega engu í auglýsingar og útvistum allri starfseminni. Við erum ekki með nein útibú heldur er þetta allt á netinu. Fyrir vikið er rekstrar- og auglýsingakostnaður mjög lítill. Í staðinn kemur það fram í hærri vöxtum. En við erum ekki að reyna að veita neina aðra þjónustu eins og hinir bankarnir gera. Við erum bara að gera þetta en ekkert annað. Þetta er okkar leið til að afla innlána erlendis án þess að þurfa að fara út í stórkostlega fjárfestingu við að byggja upp útibúanet fyrir bankann."